föstudagur, desember 05, 2008

Heimastjórnarflokkurinn endurvakinn

Kalt var í lofti og norðan næðingur í miðbæ Reykjavíkur í byrjun desember. Myrkrið lagðist yfir vitin og einungis örfá jólaljós í gluggum nærliggjandi húsa vísuðu veginn. Sennilega voru fáir farnir að huga að jólahátíðinni í Þingholtinu við núverandi aðstæður. Höfðu sennilega öðrum hnöppum að hneppa. Ekki voru margir á ferli svo seint að kveldi. Þeir fáu sem höfðu erindi út fyrir hússins dyr gengu hröðum skerfum eða beinlínis hlupu svo kuldinn næði ekki inn fyrir þunnt holdið. Einn grábröndóttur loðinn og rytjulegur flækingsköttur, horaður og bitinn framan hægra, sat á tröppum móts við Hótel Holt og beið færis þeirra sem gengu í hægðum sínum framhjá. Hann bjó með þá von í brjósti að þar væru á ferð húsáðendur nærliggjandi húsa og að fá húsaskjól og kannski matarbita. Í það minnsta eina stroku yfir hrygginn svona af vorkunsemi. Það kom enginn. Kötturinn beygði undir sig skítugar loppurnar og lagðist niður. Vonleysið skein úr augum hans.

Eftir drykklanga stund fór skyndilega að eitthvað að gerast. Menn tóku að drífa að einn af öðrum. Allir voru þeir frakkaklæddir og flóttalegir til augnanna, svona eins og þeir mættu ekki sjást, og strunsuðu rakleitt inn á hótelið. Í dyrum hótelsins stóð stór og spengilegur maður, ábygginn á svip og fylgdist grant með mannaferðum og hleypti engum inn nema að hann ætti þangað sannarlega erindi. Allir frakkaklæddu mennirnir fengu höfðinlegar móttökur er vörðurinn opnaði upp á gátt fyrir þeim um leið og hann gjóaði augunum rannsakandi út í myrkrið eftir óæskilegum gestum. Fáir voru staddir innandyra enda var langt liðið á kvöldið og þeir fáu sem höfðu ráð á að setjast þar að mat og drykk í efnahagskreppunni höfðu gert upp sína reikninga með seðlum og ekið á brott. Nokkrir þungbúnir menn erlendra bankasamsteypa réðu ráðum sínum við eitt borð í matsalnum og sötruðu Camus Xo rétt fyrir svefninn því þeim hafði verið sagt að koníaksstofan væri frátekin.

Fyrstur kom Kjartan. Hann hafði undir hendi leðurtösku sem virtist ekki hafa mikið innhald. Yfirþjónn hótelsins tók á móti honum og vísaði honum til stofunnar. Hann lagði frá sér töskuskjóðuna, gekk um og virti fyrir sér málverkin á veggjunum og ekki laust við að augasteinar hans stækkuðu um leið og hann varð dreyminn á svip. Hann hafði margsinnis séð þetta allt áður. En það var liðinn dágóður tími frá því síðast að hann bar þetta augum og ekki laust við að hann saknaði þess. Eftir stutta stund er hann var fullviss þess að allt væri á sínum stað settist hann í leðurstól, leit á klukkuna, hagræddi slaufunni, strauk þunnt hár sitt og lagði hendur í skaut sér. Næstur kom Styrmir hæglátlega inn í stofuna. Þeir félagar heilsuðust með virtum en Kjartani vöknaði um augun. Styrmir tók ekki eftir því ólíkt því sem Kjartan ætlaðist til og varð vandræðalegur á svipinn. Þeir settust. Styrmir hafði með sér Morgunblaðið þessa dags því hann hafði ekki haft tíma til að lesa það vegna þess að hann hafði verið að eyða gömlum tölvupóstum úr tölvunni sinn. Ekki hafði hann nú eytt öllu því er hann hugðist opna blaðið og fara að lesa það duttu niður fjöldinn allur af útprentuðum tölvuskeytum milli hans og Jónínu. Á því andartaki kom Björn inn.
; Hvar er Davíð? ; spyr Björn.
; Hann er ekki kominn ; svaraði Kjartan.
Þeir heilsast og fá sér sæti. Þjónninn kemur inn og spyr hvort hann geti fært þeim eitthvað.
; Komdu með sæmilega gott viskí handa okkur ; svaraði Styrmir ; tvær flösku og sex glös ;
; Hvaða pappírar eru þetta? ; spyr Björn Styrmir.
; Þetta eru tölvusamkipti mín við Jónínu. Ég gleymdi að setja þetta pappírstætarann áður en ég hætti á Mogganum. Getið þið fargað þessu fyrir mig ?;
; Minn tætari ofhitnaði og eyðilagðist eftir fall bankanna ; svarar Kjartan og þerrar á sér augun.
; Þú þarft ekkert að vera að eyða þessu. Þetta var allt birt í Baugstíðindum hvort eð var; segir Björn.
; Nei, ekki allt ; segir Styrmir og roðnar.
; Já þú meinar það ; svarar Björn ; já, ég get ekki hjálpað þér við þetta;.
Barþjónninn kom með viskíið og hellti í glösin.

Næst komu Hannes og Jón Steinar saman. Hannes var klæddur í fjólublá silki náttföt, buxur og skyrtu með svörtu stroffi og í náttslopp í stíl. Inniskórnir voru mjúkir að sjá og svartir á litinn. ; Ég var kominn upp í rúm og var að lesa Milton Friedman yfir sérrýstaupi þegar Kjartan hringdi og hafði ekki tíma til að klæða mig aftur áður en Jón Steinar kom og sótti mig. Hvað gengur á ?; sagði Hannes. Hinum brá ekki við að sjá útganginn á honum.
; Davíð vill tala við okkur. Hann þarf að ráðfæra sig við okkur ; sagði Kjartan íbygginn á svip.
; Er ekki allt í lagi með hann? Kom eitthvað fyrir hann; spurði Hannes með hræðslutón.
; Nei ekki svo ég viti ; svaraði Kjartan. Hann gat ekki lengur hulið tilfinningar sínar og brast í grát. Hannes tók utan um hann og reyndi að hughreysta hann.
; Það er allt í lagi með mig. Ég er ennþá ríkur eftir allt sem á undan er gengið ; sagði Kjartan með snöktandi röddu.
Hannes strauk á honum öxlina en varð um leið var við eitthvað óæskilegt á öxl jakkans.
; Hvað er nú þetta?; sagði Hannes.
Kjartan lítur á vinstri öxl sér og segir ; Æ litli snúðurinn minn er búin að vera svolítið kvefaður undanfarið ; Hannes brá við og færði sig fjær en sá þá sér til enn meiri hryllings barnagrautsslettur á bindi hans.
Sætan angan lagði yfir mannskapinn þegar Jón Steinar kom nær og heilsaði. Hann var illa rakaður og þreytulegur. ; Ég kom við í Hæstarétti og náði í fundarhamarinn ; sagði Jón Steinar og og rétti Kjartani hamarinn.
; Jón Steinar, getur þú fargað þessu tölvupóstum fyrir mig ; sagði Styrmir spyrjandi. Jón Steinar leit á þessa pappíra og henti þeim svo í arininn og sagði ; Þetta fer bara sömu leið og mínir ;.
Kjartan tekur þá töskuskjóðu sína og tekur upp úr henni verðlaus hlutabréf og hendir í arineldinn og þerrar tárin öðru sinni.
Þeir settust niður og fengu sér viskí.

Fyrir utan lá kötturinn og fyldist með öllum þessum mannaferðum inn á hótelið en gerði sig ekki líklegan til að vingast við þessa húsráðendur. Hann geymdi það fast í minni sér sem þessi dyravörður hafði gert honum eitt sinn er hann slapp alla leið inní matsalinn. Síðan þá hafði hann alltaf gætt að því að vera réttu megin við götuna þegar hann átti þar leið framhjá. Það var farið að kólna enn meira og klukkan að síga yfir miðnætti. Kisi var farinn að huga sér til hreyfings. Þá er tveimur svörtum nýbónuðum bílum ekið að dyrum hótelsins. Út úr þeim fremri stíga tveir dökkklæddir menn og skima í allar áttir. Gefa svo merki um að allt sé með felldu. Út úr þeim aftari stígur þybbinn maður með grásprengt liðað hár. Klæddur í jakkaföt og girtur upp í görn. Um leið og hann lokar bílhurðinni verður honum litið yfir götuna og sér þar kattarræfilinn. Kötturinn lítur í augu mannsins og yfir hann færist örlítil von. Maðurinn gengur að kettinum og kisi stendur upp, teygir úr bakinu, setur upp rófuna og trítlar út í vegkantinn þar sem þeir mætast. Maðurinn tekur úr vasa sínum poka með smjöri og klínir vænni klípu í feldinn við afturlöppina á kettinum. ; Þetta kenndi hún amma mín mér ; segir hann og við svo búið gengur hann inn.
Eftir dágóða stund halda allir út í myrkrið aftur og til síns heima. Síðastur fer sá þybbni eftir að hann er búinn að borga allt viskíið með evrueðlum. Það stóð á endum að þegar síðasti bíllinn rann úr hlaði hafði aumingja kötturinn loks lokið við að þrífa feld sinn og gekk skömmustulegur á braut með rófuna niður út í óvissuna.

Kveðja,
Þorri.

Efnisorð:

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þetta er hin skemmtilegasta saga. Flokkast líklega undir sögulega skáldsögu. Í upphafi lestursins var eg að hugsa um hlutverk kattarins í sögunni, sem seinna kom þægilega á óvart. Mætti ekki skrifa eitthvað um Bimba líka? Með kveðju frá þeirri gömlu

mánudagur, desember 08, 2008 9:37:00 f.h.  

Skrifa ummæli

<< Home