föstudagur, maí 25, 2007

Ólafur Auðunsson f.13.07.1934 - d.17.05.2007


Það er með mér ljúft og skylt að minnast pabba míns í fáeinum orðum en um leið er hjarta mitt fullt af harmi og söknuði. Ég trúi þó því að hver lífsins þrautarganga hafi tilgang og þess vegna mun ég reyna að vinna út frá því. Ég ætla ekki fara með langa ræðu um hversu góður pabbi hann var því lítillæti og hógværð voru hans einkenni eins og hann átti kyn til og þess vegna væri það hróplegu ósamræmi við hans vilja að fara að þylja slíkt upp.

Það sem kemur upp í hugann eru fyrst og fremst ljúfar minningar frá uppvaxtarárum mínum. Fyrst minning mín um pabba er frá því við bjuggum í Stóragerðinu. Kúrðum saman í stólnum framan við sjónvarpið á kvöldin þar til við sofnuðum báðir yfir kúrekamynd. Ég minnist líka bíóferða í Hafnarbíó, sem staðsett var í gömlum bragga á Barónstíg, til að sjá Charlie Chaplin. Ísbíltúranna á sunnudögum með viðkomu á bryggju Reykjavíkurhafnar til að skoða bátana. Vinnuferða um helgar vestur í Örfinsey til að aðstoða Júlla við lagfæringar á trillunni hans. Einnig er mér í fersku minni sólríkir sumardagar er við lögðum leið okkar niður á hitaveitustokk, þar sem nú er útvarpshúsið, til að bóna Saabinn. Þá þótti mér alltaf skemmtilegast þegar við fórum í leiðangra um helgar um bílasölur borgarinnar til að berja augum nýjustu strauma og stefnur í bílaframleiðslu heimsins. Oftar en ekki endaði sú ferð í Nesti í Fossvoginum. Ég fékk pylsu og maltflösku en pabbi fékk sér pilsnerflösku og Fauna-vindil.

Seinna gafst mér tækifæri til að eyða fleiri stundum með pabba þegar ég fór að vinna hjá honum í byggingarvinnu á sumrin. Það voru dýrmætir tímar og seinna lærði ég til trésmiðs hjá honum. Þegar pabbi ók inn á byggingarsvæðið og varla sást inn um bílrúðurnar fyrir vindlareyk var það merki um það að það væri föstudagur og komið að því að borga út vikulaunin. Pabbi studdi mig í einu og öllu sem ég tók mig fyrir hendur og hvatti mig áfram á sinn hátt. Hann lét sig ævinlega sjá sig í Víkinni þegar ég var að keppa en lét ekki hátt. Það dugði mér. Hann vakti áhuga minn á raungreinum sem átti eftir að koma sér vel síðar meir. Hann kenndi mér að tefla eins og fleirum í fjölskyldunni og tefldum við talsvert þegar ég var barn og unglingur. Ég man þegar ég vann pabba í fyrsta sinn í alvöru einvígi og þá skildi ég hvaðan ég hafði keppnisskapið. Pabbi var tapsár eins og ég. Ég man líka að ég fékk samviskubit yfir því að hafa unnið hann, slík var virðing mín gagnvart honum.

Ég fékk tækifæri til að ferðast með pabba og mömmu um heiminn þegar ég var barn. Pabbi var mikill áhugamaður um fallegar byggingar og listasöfn sem geymdu mörg frægustu verk fyrri alda. Ég held að við tólf ára aldur hafi ég verið búinn að sjá fleiri kirkjur en sjálfur páfinn og bölvaði því í hljóði að þurfa vakna sex á morgnanna í sumarfríinu til þess eins að skoða Guðshús. Ég lærði þó að meta þetta á fullorðinsárum og sjálfur held ég uppteknum hætti í mínum fríum með minni fjölskyldu. Eini munurinn er sá að ég bíð eftir sólarupprás.

Það stakk mig fast í hjartastað sl. haust er ég fékk fréttina um að pabbi hefði fengið vægan blóðtappa í höfuðið. Í sömu vikunni fengum við Guðný nefnilega þær fréttir að von væri á okkar öðru barni sem koma ætti í heiminn í júní byrjun. Inni í mér tókust á ólíkar tilfinningar, gleði og ótti, því mér fannst þetta vera fyrirboði einhvers. Í allan vetur hefur mér liðið einkennilega vegna þessa. Kvöldið áður en pabbi fékk heilablóðfallið höfðu hann og mamma verið í heimsókn hjá okkur. Pabbi hafði nýlokið við að smíða glugga í kvistinn á Skála en miklar endurbætur haf staðið þar yfir á æskuheimilinu hans sem hann fylgdist vel með. Þá sagði hann mér að hann hafi verið að fella 12m háa ösp í garðinum þann daginn. Hann virtist inn hressasti enda vor í lofti og gróðurinn að springa út. Daginn eftir bútaði hann stofninn listilega niður með sög. Það reyndist vera hans síðasta verk. Rúmri viku seinna aðfaranótt 17. maí sat ég við rúmstokkinn hjá honum, hélt í hönd hans og horfði á líf hans fjara út. Tíminn stóð kyrr í eylífri bið eftir næsta andardrætti sem aldrei kom.


Elsku pabbi. Þakka þér kærlega fyrir allar okkar samverustundir. Minningin um örlátan- lítillátan fagurkera og náttúruunnenda mun ylja mér um aldur og ævi.

Þorri Ólafsson.


(Grein þessi birtist í Morgunblaðinu þann 25. maí í styttri útgáfu)

Efnisorð:

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Þessi grein er ekki síðri þeiri, sem kom í Mogganum. Þú skalt sýna börnum þínum Vatíkanið og auðvitað Péturskirkjuna einhverntíma eftir sólarupprás.Gott að vita að glugginn er komin í kvistinn á Skála. Við eigum ef til vill eftir að sofa þar uppi einhverntíma. Þú veist að við eigum Skála 13. júlí n.k. Býð í holusteik að öllu forfallalausu. Kveðja, mamma.

sunnudagur, maí 27, 2007 10:34:00 f.h.  
Blogger Unknown said...

Elsku vinir. Votta ykkur enn og aftur mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Kv.
Halli

fimmtudagur, júní 07, 2007 5:17:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home