Hitt og þetta
Við þessu hefur snarlega verið brugðist. Ég fór einu sinni í ræktina í síðustu viku og tvisvar í þessari og svei mér þá ef ég er ekki bara að verða helköttaður.
Á náttborðinu mínu hefur all lengi legið bókin Alkemistinn. Þessi bók hefur verið hafinn upp í hæðstu hæðir og henni lýst sem bók sem allir verði að lesa því í henni liggi djúp lífsspeki sem fær menn til að hugsa sinn gang. Ég hef ítrekað reynt að fikra mig í gegnum þetta torf en ávallt orðið frá að hverfa sökum leiðinda. Eftir hálfa bókin gafst ég loks upp. Þvílíkt og annað eins bull hef ég ekki lesið síðan ég las Gagn og gaman í fyrsta skipti og það verður að segjast eins og er að af henni hafði ég meira gagn svo ekki sé talað um skemmtanagildið. Ef menn vilja lesa um lífsspeki þá þarf bara að lesa Brekkukotsannál eftir Laxness. Hún segir mikið meira en margar svona froðusnakksbullbækur.
Ég las aftur á móti Gangvirkið eftir Ólaf Jóhann Sigurðarsson. Það er mögnuð bók, bæði skemmtileg og áhugaverð skáldsaga um sveitapilt í Reykjavík í aðdraganda hernámsins. Þarna eru kómískar lýsingar af pólitíkusum, embættismönnum og framapoturum sem vel er hægt að heimfæra í nútímann. Má þar nefna Framfaraflokkinn sem dæmi en fyrirmynd hans á sér trygga stoð í raunveruleikanum jafnt þá sem nú. Það hefur ekkert breyst hjá þeim blessuðum.
Í fyrramálið er ég að fara austur að Ysta-Skála, á óðalið í blómabrekkunni, og taka til hendinni líkt og um síðustu helgi. Þá skiptum við um þakið á bænum og um helgina á að klæða gaflana að utan. Þetta er hörku skemmtilegt, við frændurnir vinnum úti og frænkurnar í eldhúsinu. Gulli og frú í miðbænum göptu af undrun og bauðu okkur að taka sitt þak næst við dræmar undirtektir. Sauðburður er hafinn í Skálasókn og allt að springa út. Svo heitt var á sumardaginn fyrsta að menn voru með óráði. Feður okkar hafa sagt okkur að það sé mjög algengt í þessari sókn. Ástæðan gæti líka verið lyktin úr fjóshaugnum hans Gulla.
Gott í bili.
Efnisorð: Apríl 2007
2 Comments:
Skemmtilegur pistill hjá þér, en kvíðvæntlegt þetta með vigtia, er hún ekki bara biluð? Ég stíg aldrei á mína, nema hafa lengi safnað kjarki og efast alltaf um sannleiksgildi hennar á eftir. Þetta rennur allt af þér, þegar þú ferð að ganga um gólf með reifastrangann á næturna. Lífsspeki okkar er ekkert síðri þeirra í Suður-Amríku. Lestu því íslenskt. Hefurðu lesið Innansveitarkroniku? Mamma
Ein fróm spurning. Gæti verið að The Olafssonbrothers hafi verið komnir með snert af hinu umtalaða óráði um daginn þá er þeir óku heimleiðis að loknu dagsverki á óðalinu í blómabrekkunni? The Mother.
Skrifa ummæli
<< Home