laugardagur, maí 05, 2007

Hvar liggur mitt atkvæði?

Jæja góðir hálsar. Núna er vika til kosninga og ég er einn þeirra fjölmörgu sem hafa ekki enn ákveðið sig hvaða flokk þeir ætla að kjósa á laugardaginn 12. maí. Þessi kosningabarátta hefur fram til þessa verið frekar litlaus hvað málefnin snertir og harla lítill áherslumunur í mörgum málaflokkum. Aftur á móti hafa farið fram ágætar umræður í sjónvarpinu og frambjóðendur eru vel kynntir í alla staði, enda er kapphlaup fjölmiðlana í algleymingi þessa dagana, og almennur kjósandi nýtur bara góðs af allri þessari eftirspurn eftir athygli þeirra. En nú er svo komið að ég hef enn ekki fundið þann flokk sem hefur sannfært mig um að hans eigið ágæti sé meira en einhvers annars til að fá umboð mitt til að stýra þessu landi. Þess skal getið hér að ég var alinn upp á Framslóknarheimili og gott ef ekki örlaði á örlitlum sósíalisma þar einnig. Alla vegna var Tíminn síðar NT og Þjóðviljinn sem var boðið uppá á þeim bænum og ef mig misminnir ekki þá voru þessi blöð ekki borin út til okkar undir það síðasta heldur send með leigubíl. Háskólastúdentar gerðu sér meira að segja ferð til okkar í Breiðholtið til að lesa þessi ósköp. Afi minn í móður ætt var líka mikill Framsóknarmaður en hann hélt líka alltaf með ÍA í öllum íþróttageinum og skipti þá engu hvort ÍA ætti keppnislið í viðkomandi grein eða ekki. Þannig var nú það. Mínar pólitísku skoðanir hafa að einhverju leyti litast af uppeldinu en þó ekki til fulls að ég hygg. En hvar liggur mitt atkvæði í dag? Hér ætla ég að fara yfir þá málaflokka sem helst er nú um rætt fyir þessar kosningar og gefa mitt álit á þeim. Kannski einhver geti svo sagt mér hvað ég eigi að kjósa.

Menntamál: Ég vil efla Háskóla Íslands enn frekar en um leið greiða götu fyrir aðra háskóla. Ég tel ekki skynsamelgt að stytta framhaldsskólanámið heldur gefa skólunum frekar svigrúm til að bjóða upp á slíkt.

Heilbrigðismál: Ég er andvígur byggingu hátæknisjúkrahúss á meðan ekki fæst fólk til að vinna inni á þessum sjúkrahúsum. Tryggja þarf stafsfólkinu mannsæmandi laun. Auk þess tel ég staðsetninguna vera fráleita í ljósi skipulagsmála. Setja þarf meiri pening í heilbrigðiskerfið en um leið að auka einkarekstur á þeim sviðum sem mögulegt er.

Umhverfismál: Ég vil vernda náttúruna í mikið meira mæli en nú er og koma á rammaáætlun um það sem við viljum vernda.

Virkjana- og stóriðjumál: Ég vil hægja verulega á í virkjanaframkvæmdum og hætta við virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Koma þarf því þannig fyrir að uppbygging á stóriðju verði ekki öll á sama tíma þvers og krus um landið.

Velferðarmál: Forgangs atriði er uppygging hjúkrunarrýma fyrir aldraða. Bæta þarf kjör öryrkja og geðfatlaðra strax.

Skattamál: Hækka skattleysismörkin í 140þ. á kjörtímabilinu. Lækka skatta á fyrirtæki niður í 16%. Afnema skattgreiðslur lífeyrisþega. Afnema stimpilgjöld. Ég vil afnema verðtygginguna. Afnema tekjutenginguna.

Sjávarútvegsmál: Breyta þarf fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að menn geti ekki framselt kvóta. Kvótinn verði eign þjóðarinnar og hann afhentur gegn gjaldi.

Landbúnaðarmál: Afnema tolla og vörugjöld á innfluttar landbúnaðarvörur og koma á frjálsum markaði á landbúnaðarvörum. Draga verulega úr ríkistyrkjum til bænda og láta markaðinn ráða ferðinni.

Innflytjendamál: Tryggja þarf að þeir innflytjendur sem hingað koma og setjast hér að til lengri tíma læri íslensku. Allir sem vinna við þjónustu tali íslensku, ég fer ekki fram á meira.

Utanríkismál: Ég andvígur þátttöku í stríðsrekstri með beinum eða óbeinum hætti. Ég vil Ísland af lista hinna staðföstu og viljugu þjóða fyrir innrásinni í Írak. Ég vil hætta að skipa afdánkaða pólitíkusa sem sendiherra vítt og breytt um heiminn.

Samgöngumál: Ég vil ekki leggja hálendisveg yfir Kjöl. Ég vil ekki tvöföldun á Hvalfjarðargöngum. Ég vil tvöföldum á Suðurlandsvegi að Selfossi sem allra fyrst. Ég vil ekki endurvekja strandsiglingar. Ég tel að jarðgöng til Vestmannaeyja eigi ekki að vera á dagskrá í náini framtíð. Hefja þarf framkvæmdir við Strandaveg. Vaðlaheiðargöng eiga að vera gjaldfrjáls sem og allar aðrar samgöngur á landi. Samgöngur innan borgarmarkanna stefna í mikið óefni og það þarf að koma í veg fyrir frekari umferðarteppur og greiða úr þeim sem þegar eru staðreynd. Ég vil hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýrinni.

Einkavæðing: Ég er á móti einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég er á móti einkavæðingu Landsvikjunar að sinni. Ég vil meiri einkarekstur í menntamálum og heilbrigðismálum. Ég er andvígur því að Ríkið sé með einkaleyfi á sölu áfengis og tóbaks. Ég vil einkavæða Rannsóknarstofnun Byggingariðnaðarins.

Almennt séð vil ég sjá að hér verði áframhaldandi kaupmáttaraukning og hagvöxtur haldi áfram vaxa, lærri verðbólgu og minni vaxtamun. En hver vill það ekki?

Hvað á ég að kjósa?

Efnisorð:

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Enginn flokkur rúmar öll þessi góðu markmið en þetta er greinilega ekki hægri stefna, sem betur fer. Ég held að ég gæti skrifað undir flest af þessu svona fljótt á litið. Háskólastúdentinn, sem þú talar um man ég ekki hver er, nema ef vera skildi Iún þegar hún bjó á Grímshaganum. Kveðja að heiman.

sunnudagur, maí 06, 2007 4:55:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Spurt er: "Hvað á ég að kjósa?" Miðað við forsendur þínar virðist svarið liggja í augum uppi en þó hefði verið betra að þú forgangsraðað. Þá hefði þetta verið augljósarar. En sé á allt litið hefur þú aðeins tvo kosti, þ.e. Sjálfstæðisflokk eða Samfylkingu, þeir flokkar liggja næst skoðunum þínum en aðeins forgangröðum myndi skera út um það hvor væri nær þeim. Sýnist þú vera hægrisinnaður jafnaðarmaður sem þýðir að þú fylgir hinu nýja ráðandi afli innan Sjálfstæðisflokksins og sennilega meirihluta Samfylkingarmanna. Fjærst skoðunum þinum liggja Framsókn og Vinstri grænir. Tekur því ekki að hugsa um Frjálslynda... þeir eru hvort sem er ekki frjálslyndir fyrir fimm aura.

fimmtudagur, maí 24, 2007 8:53:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home