miðvikudagur, mars 14, 2007

Tiltekt, Kaupmannahöfn og bókalestur

Undanfarna daga hafa farið fram reglulegar tiltektir í hinum ýmsu skúmaskotum í okkar ágætu íbúð. Ekki er vanþörf á. Ekki ber svo að skilja að hér sé allt í drasli, síður en svo, heldur þarf að rýmka í hirslum áður en fjölskyldan stækkar í sumar byrjun. Einn liður í þessari aðgerð var þvottahúsið. Það kom okkur skemmtilega á óvart að það eru flísar á þvottahúsgólfinu.

Við brugðum okkur af landi brott yfir s.l. helgi til höfuðstaðs Danaveldis. Þetta var ágætis afslöppun frá þrifum og almennri geðveiki. Danir eru nefnilega lausir við þessa geðveiki og hraða sem er að buga okkur hér á höfuðborgarsvæðinu. Við borðuðum góðan mat, fórum í búðir og skoðuðum okkur um í Kóngsins Köben. Kallinn fékk sér nokkra Græna á fornum slóðum Þjóðskáldanna á meðan frúin keypti barnaföt og til varð þessi vísa.

Smörrebröd og snus i vör
smuk er Hvides Vinstue.
To tre öl bliver mör
dejligt er Tuborg flue.

Og aftur var kallinn í stuði af sama tilefni.

Angann finn þess andansmanna,
angist þeirra og böl.
Eigi þurftu neitt að sanna,
ég skála í einum öl.

Ég lauk við að lesa frábæra bók um helgina sem kerlingin hún móðir mín lánaði mér. Hún ber nafnið Frásögn um margboðað morð eftir Gabríel Garsía Marquez. Sagan segir frá manni sem tekinn er af lífi af tvíburabræðrum sem eru að gæta heiðurs fjölskyldunar. Þetta er mögnuð bók og kvitta ég fyrir það. Núna er ég að lesa Alekemistinn hún lofar bara góðu. Meira um það síðar.


Annars eru hér allir heilir á húfi þó stutt sé í almenna geðveiki.

Hilsen.

Efnisorð:

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Bókin sem þú vitnar í er óvenjuleg að því leyti að í upphafi er endirinn augljós og segir hvaða leiðir menn nota til hefnda þar suðurfrá þegar þeim er misboðið og treysta ekki dómstólum.Næst lána ég þér Hundarð ára einsemd, hún mun duga þér í nokkrar utanlandsferðir.
Er þetta orðið bókmenntaspjall?Getið þið komið hingað í tiltekir og grisjun á fatalager okkar meðan þið eruð í æfingu. Þið gætuð kannski fengið einhverja góða og sígilda flík að launum sem ekki hefur enn lent hjá Rauðakrossinum vegna slóðaskapar. Ég er ekki alveg nógu góð í dönsku til að skilja til hlíar sum orðin. Ég þykist vita að átt sé við bragðið á Tuborg í vísulok.en mör veit ég ekki alveg hvað þýðir, þætti vænt um að fá skýringu á því við tækifæri.Dönskukunnáttan sennilega orðin úrelt eins og fleira. Mamma grey

föstudagur, mars 16, 2007 7:12:00 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Mör þýðir náttúrlega spik eða ef til vill sjarmör, sem passar jafnvel betur






















Mör þýðir náttúrlega spik eða ef til vill sjarmör, sem passar jafnvel betur. Kerlingin

mánudagur, mars 19, 2007 5:01:00 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home