Fimmtudaginn sl. þann 1. nóvember hófst rjúpnaveiðitímabilið. Mikill spenningur er jafnan meðal veiðimanna þegar veiðitímabilið hefst og átti það einnig við um mig. Ég tók mér frí frá vinnu til að getað tekið þátt í samkeppninni við aðra veiðimenn um að ná í rjúpur fyrir mig og mína og getað borðað rjúpur yfir hátíðirnar. Við lögðum snemma af stað fjórir saman á "leynistað" og gengum inn í óbyggðir Íslands hlaðnir skotbyrgðum sem hefðu dugað til að fella nánast allan rjúpnastofninn. Skemmst er frá því að segja að lítið var um fugl en meira um veiðimenn. Þetta var nánast öxl við öxl og allir höfðu sömu sögu að segja. Lítið um rjúpu. Við skutum þó allir þó þrjú stykki hver og undum því bara vel og héldum í bæinn áður en óveður skall á. Ég hengdi kvikindin upp úti á palli þegar heim var komið og reyndi að ganga þannig frá að þær væru þar óhultar fyrir mönnum og málleysingjum. Á laugardagskvöld gerði ég stöðumat á bráðinni og viti menn - þar hékk ein eftir og höfðuðið af annari. Hvítt fiður hafði dreift sér um sólpallinn og í móanum fyrir utan. Á sama tíma var mér ljóst að matarbyrgðir í matardalli heimiliskattarins höfðu ekki grynkkað sem skyldi. Ég tel það næsta víst að Bimbi hafi tekið jólin snemma þetta árið enda hefur hann legið á meltunni alla helgina. Svona fór nú það.
Kveðja,
Þorri og Bimbi.
Efnisorð: Nóvember 2007
3 Comments:
Hefurðu þá ekki tækifæri til að fella, oftar en annars, niður vinnu til að ganga til veiða og bæta fyrir skaða þann sem hlauts af veiðiskap Bimba? Kveðja frá gömlu
Hárrétt. Bimbi á miklar þakkir skildar fyrir þennan grikk.
Þorri.
Ég var að hugsa um hvort heiti síðasta pistils ætti við um veiði þína eða Bimba? Kv. Mamma
Skrifa ummæli
<< Home