þriðjudagur, desember 25, 2007

JÓLAANNÁLL 2007


Kæru vinir og vandamenn.

Árið 2007 er nú brátt á enda. Það hefur okkur verið viðburðaríkt fyrir margar sakir. Bæði urðu Guðný og Þorri 35 ára á árinu og þykir það furðu sæta þar sem þau bera þess ekki glögg merki. Kolbrún Þöll er orðin átta ára og þykir foreldrunum það enn furðulegra því unglingaveikin er farin að láta á sér kræla. Kolbrún Þöll æfir fimleika af miklum eldmóð og ekki líður sá dagur að ekki séu tekin nokkur handahlaup heima fyrir svona aukalega, foreldum sínum stundum til mikillar mæðu. Kolbrún Þöll var í skólagörðunum í sumar og ræktaði heilmikið grænmeti. Hún fór líka á skátanámskeið og hestanámskeið og unir hag sínum vel enda frábær stúlka. Fyrri part sumars urðu straumhvörf í lífi okkar allra. Pabbi Þorra féll frá eftir skammvin veikindi og tæpum mánuði seinna fæddist okkur í þennan heim drengur sem fékk nafnið Óliver Gísli.
Húsbóndinn reyndi að færa björg í bú við veiðar vítt og breytt um landið með misjöfnum árangri. Heimiliskötturinn Bimbi gerði sér mat úr því og át helming af rjúpuveiðinni öllum til mikillar gremju.
Lítið var um ferðalög á árinu fyrir utan stuttar sjoppuferðir til Kaupmannahafnar og í sveitina.
Guðný hefur verið í fæðingarorlofi og notið þess að vera heima með börnunum ásamt því að stunda ungbarnasund og mannrækt. Óliver Gísli stækkar og stækkar og er kominn með fleiri tennur en gömlu karlarnir í sveitinni höfðu á þeim tíma er Þorri var þar smali.
Fjölskyldan hafði tekið ákvörðun á síðasta ári að reisa sér heimili í Kópavogi. En henni snérist hugur um páskana og ætlar hún að halda kyrru fyrir í “bænum bláa” og hefja byggingu á húsi í Garðahrauninu strax á nýju ári.

Um leið og við óskum ykkur gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs, viljum við þakka fyrir liðið ár og hlýjar kveðjur á erfiðum jafnt sem ánægjulegum stundum.

Guð blessi ykkur.

Þorri, Guðný, Kolbrún Þöll, Óliver Gísli og Bimbi.

Efnisorð:

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home