Á mánudaginn s.l. þann 10. desember varð Kolbrún Þöll 8 ára gömul. Þetta skinn verður sífellt sjálfstæðara með aldrinum og það er undarlegt að hugsa til þess að eftir önnur 8 ár gæti hún verið flutt til útlanda eins og uppáhalds frænka hennar hún Ragna Björk. Fyrir átta árum þegar Kolbrún Þöll fæddist var ég á hækjum með slitna hásin og gat ekki haldið á henni nema sitjandi. Nú er hún orðin svo stór að get heldur vart haldið á henni óstuddur. Tíminn líður hraðar en mann langar, svo mikið er víst. Annars er það að frétta af Kolbrúnu Þöll að hún hefur tekið þátt í tveimur fimleikamótum í vetur og staðið sig með mikilli prýði. Hún er að safna sér fyrir i-pod og ætlar sér að verða fimleikastjarna og hestakona síðast er ég spurði hana.
Tíminn einn mun leiða það í ljós hvað verður en hitt er þó víst að á morgun kemur nýr dagur.
Góða nótt.
Þorri.
1 Comments:
Til hamingju með Kolbrúnu Þöll. Hún verður án efa mjög sjálfstæð og ákveðin ung stúlka þegar þar kemur. Ég er að reyna að rifja upp hvernig þú varst á hennar aldri.Þá varst þú farin að æfa með IR og Valstímabilinu lokið. Þú varst mjög rólegur og stilltur og fékkst engar ákúrur á foreldradögum. Eg man ekki hver kenndi þér þá, en leikfélagarnir voru Egill Þorri, Halli og Guðmundur. Þá held ég að þú hafir venjulega verið samferða litlu dökkhærðu stelpunn í skólann, það er að segja þegar þú varst kominn í hvarf á bak við blokkirnar. Þú hefur sjálfsagt ekki viljað láta systkini þín sjá, til að komast hjá stríðni þeirra. Hvað heitir stelpan? Björk? Þá varst þú löngu kominn yfir Tætuskólaóttann og búinn að læra að þekkja litla g-ið. En hefur líklega ekki verið búinn að læra þetta"faðir". Ekki þótti foreldrunum ástæða til að græta þig oftar með námsáhyggjum þess vegna, en allt mun þetta einhvernveginn hafa lærst með tímanum. Mér finnst að þetta hafi verið skemmtilegir og áhyggjulausir tímaar. Kveðja, Mamma
Skrifa ummæli
<< Home