sunnudagur, janúar 21, 2007

Í upphafi þorra

Þorrinn byrjaði með bóndadeginum á föstudaginn var. Það er hefð fyrir því á okkar heimili að konan færi bónda sínum morgunverð í rúmið á þessum degi. Guðnýju er fyrirgefið að hafa rofið þessa hefð þetta árið sökum morgunógleði. Þorrinn er oftar en ekki umhleypnigasamur tími í veðri eins og Fjallaskáldið Kristján Jónsson orti svo listlega um í Þorraþrælnum.

"Nú er frost á Fróni,
frýs í æðum blóð,
kveður kuldaljóð
Kári í jötunmóð."

Í upphafi þorra, á bóndadaginn, tíðkaðist í fyrri tíð að bóndinn hoppaði í kringum bæinn á nærhaldinu einu fata. Ég lét það ógert þetta árið enda frostið það mikið að maður yrði ekki til mikils gagns og gamans þann daginn alla vega.

Nú ber svo við að í upphafi þorra er líka umhleypingar í íslenskum stjórnmálum. Kjördæmisþing Sjálfstæðismanna á suðurlandi samþykkti lista flokksins og þar með það klárt að Árni Johnsen er á leið inn á Þing. Hjálmar Árnason er á leiðinni út af þingi í vor og hættir í pólitík eftir misheppnaða tilraun til að fella Guðna úr fyrsta sæti Framsóknar í prófkjöri flokksins um helgina. Mín tilfinning er sú að það sé ekki mikil eftirsjá af þeim manni af þingi. Valdimar Leó Friðriksson gekk til liðs við Frjálslynda í dag en hann vann sér það til frægðar á dögunum að tala samfleytt í fimm og hálfa klukkustund um RÚV-frumvarpið. Sögusagnir eru um að Kristinn H. Gunnarsson sé einnig að ganga til liðs við Frjálslyndaflokkin og taki sæti á lista í Norðvesturkjördæmi. Kristinn er eins og villuráfandi sauður í íslenskri pólitík og verður hornreka í öllum þeim sauðhúsum sem hann kemur í. Ný skoðunarkönnun á fylgi flokkanna sýnir að Framsókn og Samfylking eru að tapa fylgi, Vinstri Grænir og Íhaldið bæta við sig en Frjálslyndir standa í stað frá síðustu könnun. Í sauðhúsi Frjálslyndra mun sennilega vera mikið jarmað um næstu helgi þegar kosningar í forystu flokksins fara fram.

HM í handbolta byrjaði á um helgina og sigur á Áströlum var sjálfsagður en þó ekki fyrirhafnarlaus að mínu mati. Eftir leikinn lýsti Alfreð þjálfari því yfir að Úkraína yrði engin fyrirstaða og Ísland myndi vinna leikinn. Ég undraðist þessi ummæli þessa reynda keppnismanns í gær. Það er enginn leikur unninn fyrirfram á HM, það ætti hann að vita núna eftir sárt tap gegn Úkraínu. Hann virtist taka tapinu afar illa og sýndi Geir Magnússyni dónaskap í viðtali við RÚV eftir leikinn. Nú er bara að þjappa sér saman og vinna Frakka á morgun.

Það jákvæðasta við helgina er sú staðreynd að Liverpool sigraði lánlausa, en langt frá því launalausa, menn Chelsea 2-0 í ensku deildinni í gær. Það var líka ánægjulegt að heyra að Arsenal sigrði Man. Utd. í dag og ekki hefur það spillt ánægjunni hjá Simma og Sindra að hafa verið á vellinum. Þetta er þýðir bara það að pakkinn er að þéttast á toppnum og gerir þetta meira spennandi.

Gleðilegan þorra.

Efnisorð:

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home