
Í dag var borinn til grafar Ásgeir Ármannsson rétt tæplega 86 ára að aldri. Það má með sanni segja að við andlát hans þann 2. febrúar hafi hæsti samnefnari Víkinga fallið frá. Þegar ég gekk til liðs við Víkinga árið 1995 fann ég fljótlega að þar væri gott að vera enda hef ég oft sagt það að Víkingur væri eins og ein stór fjölskylda. Þó liðið hafi gengið í gegnum öldudali hafa líka unnist glæstir sigrar og einstakur liðsandi hefur ríkt þar bæði innan vallar sem utan. Í þessu hafa hjónin Ásgeir og Lára tekið þátt í frá því 1957 er þau settust að í Ásgarðinum. Það er margs að minnast á þeim árum sem ég hef þekkt Ásgeir og Láru. Ásgeir sá um búninga og leikskýrslu meistaraflokksins fyrir hvern leik þegar ég spilaði mína fyrstu leiki og gerði hann það af mikilli nákvæmni og samviskusemi. Og áður en leikmenn gengu til vallar í Víkinni stóð hann alltaf við stigann framan við búningsklefann og tók þéttings fast í höndina á hverjum og einum leikmanni. Hið sama gerði hann líka í leikslok, hvernig sem úrslitin voru. Þegar leikið var að heiman gerðu Ásgeir og Lára sér oftar en ekki ferð í Víkina til að kasta á okkur kveðju áður en haldið var af stað. Og við heimkomu eftir langar rútuferðir eða flugferðir var maður aldrei hissa á að sjá gömlu hjónin á planinu eða í flugstöðinni, klappandi mönnum á bakið hver sem árangur erfiðisins var. Mér er mjög minnistætt þegar við komum með flugi frá Akureyri eitt árið. Sigur hafði unnist í erfiðum leik. Fluginu hafði seinkað og komið var langt fram yfir miðnætti við komuna til Reykjavíkur. Það var ekki að spyrja að því, hjónin voru mætt og fögnuðu okkur við komuna. Ásgeir gegndi margra trúnaðrstarfa innan knattspyrnuhreyfingarinnar og eitt af því var seta í aganefnd KSÍ til 25 ára. Ekki leið sá þriðjudagur eftir fund aganefndar að Ásgeir kom ekki með listan yfir þá menn sem komnir voru á hættusvæðið vegna fjölda gulra spjalda. Oftar en ekki þurfti að hann að minna menn á staðreyndirnar í því. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um hvaða mann Ásgeir hafði að geyma. Hann var sannur Víkingur og ljúfmenni hið mesta. Núna hefur Einar tekið við því starfi sem Ásgeir gegndi áður fyrir meistaraflokkinn og það er auðséð að hann hefur lært vel til verka, samviskusemin og nákvæmnin er honum greinilega í blóð borin.
Þess sem ég sakna mest eftir að ég hætti að spila er að fá ekki traust handabandið frá honum fyrir leik og hlýtt faðmlagið eftir leik. Skarð hans verður ekki fyllt.
Kæri vinur, þakka þér fyrir að fá að kynnast þér.
Við sjáumst á vellinum í sumar.
Elsku Lára og fjölskylda, mínar dýpstu samúðarkveðjur til ykkar allra á þessum erfiðu tímum og megi Guð vera með ykkur.
Þorri.
Efnisorð: Febrúar 2007
2 Comments:
Nú er talvan komin í lag eftir 2ja mánaða stopp vegna klaufaskapar míns og þess að vera ekki með rétta tryggingu þrátt fyrir náinna tengsla við tryggingaheiminn. Mitt fyrsta verk var auðvitað að fara inn á bloggið þitt og lesa upphátt fyrir sk..... Eg fór bara skæla við lestur þessarar greinar,svo góð og hjartnæm fannst mér hún. Grey.
Það voru forréttindi að fá að kynnast manninum og vera hluti af hans liði.
Ég man þegar ég kom í Víking '99 þá tók hann í spaðann á mér með báðum höndum og við áttum nett spjall. Eftir það var ég alltaf "Danni minn" hjá honum.
Það eru ekki margir búnir til úr sama efni og Ásgeir og Lára og tel ég mig heppinn að hafa fengið að kynnast þeim og þeirra viðhorfi.
Bestu kveðjur til Láru og fjölskyldunnar allrar.
Kv, Danni Hjalta.
Skrifa ummæli
<< Home